Lög félagsins

Lög Samtaka um bíllausan lífsstíl

I. kafli Nafn og tilgangur

1.1 Félagið heitir Samtök um bíllausan lífsstíl. Aðsetur þess er í Reykjavík og varnarþing er í Reykjavík.

1.2 Samtök um bíllausan lífsstíl er þverpólitískt félag fólks sem hefur það sameiginlega áhugamál að gera bíllausan lífsstíl að vænlegri kosti en nú er. Markmið félagsins er ekki að berjast gegn einkabílum eða bíleigendum, heldur einungis að stuðla að fjölbreyttari samgöngum og berjast fyrir því að jafnræðis sé gætt milli ólíkra samgöngukosta.

1.3 Tilgangi sínum samkvæmt gr. 1.2 skal félagið ná með því að standa fyrir; fundum, atburðum, þjóðmálaumræðu, og hverju því öðru sem fallið er til að vekja jákvæða athygli á bíllausum lífsstíl.

1.4 Starfstími félagssins og reikningsár er á milli aðalfunda.

II. kafli Stjórn félagsins

2.1 Stjórn félagsins skal skipuð 3 – 7 félagsmönnum. Kosningar til stjórnar skal auglýsa á tryggilegan hátt einni viku, hið minnsta, fyrir boðaðan aðalfund. Stjórn skal skipuð formanni, ritara og gjaldkera ásamt allt að tveimur meðstjórnendum, 0-2 varamönnum í stjórn. Á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfund skal hún skipta með sér verkum að fenginni tillögu formanns. Hafi einungis borist framboð til stjórnar en ekki formanns geta eftir sem áður allt að 5 tekið sæti í stjórn. Ber þá nýrri stjórn að velja formann úr sínum röðum á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfund.

2.2 Stjórn stýrir málefnum félagsins með þeim takmörkunum sem lög þessi setja. Hún tekur ákvarðanir um starfsemi félagsins og er ábyrg fyrir fjárreiðum og skuldbindingum gagnvart öðrum aðilum. Skipunartími stjórnar er á milli aðalfunda.

2.3 Formaður ritar firma félagsins. Formaður og gjaldkeri rita prókúru félagsins.

2.4 Formaður kemur fram fyrir hönd félagsins, boðar stjórnarfundi og stýrir fundum stjórnar.

2.5 Ritari ritar fundargerðir stjórnarfunda, heldur félagaskrá og hefur umsjón með heimasíðu félagsins.

2.6 Gjaldkeri ber ábyrgð á bókhaldi félagsins og hefur umsjón með fjármögnun félagsins.

2.7 Stjórn skal halda fundi eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði. Stjórnarmeðlimir geta óskað þess að boðað verði til stjórnarfundar. Meirihluti atkvæða ræður á stjórnarfundi. Stjórn telst ályktunarbær, ef meirihluti stjórnarmeðlima situr fund.

III. kafli Aðalfundur

3.1 Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda í september ár hvert. Til fundarins skal stjórn boða með auglýsingu á tryggilegan hátt, með viku fyrirvara hið minnsta, og er hann þá lögmætur. Tillaga hlýtur samþykki ef helmingur fundarmanna greiðir henni atkvæði.

3.2 Mál þessi skulu tekin til meðferðar á aðalfundi:

1. Skýrsla stjórna, skýrslur nefnda og umræður

2. Skýrsla gjaldkera og samþykkt reikninga

3. Kjör formanns til eins árs

4. Kjör 2-4 meðstjórnanda til eins árs

5. Kjör 0-2 varamanna til til eins árs

6. Kjör 1-2 skoðunarmanna reikninga til eins árs

7. Lagabreytingar

8. Önnur mál

3.3 Kosningarétt og kjörgengi á aðalfundi hafa allir félagsmenn. Tilkynna skal stjórn framboð til embætta innan félagssins að minnsta kosti sólahring fyrir upphaf aðalfundar. Heimilt er að framlengja framboðsfrest í þau embætti sem framboð berst ekki í.

3.4 Félagið innheimtir ekki félagsgjöld.

IV. kafli Félagsmenn

4.1 Félagsmaður getur orðið hver sá sem er fylgjandi tilgangi félagsins eins og hann er tilgreindur í gr. 1.2. Stjórn skal samþykkja reglulega uppfærða félagaskrá, sem ritari heldur, og teljast þeir félagsmenn sem skráðir eru á samþykktu félagatali.

V. kafli Ýmis ákvæði

5.1 Lögum félagsins má breyta á aðalfundi og þurfa 2/3 hlutar fundarmanna að greiða atkvæði með lagabreytingunni til að hún teljist samþykkt. Lagabreyting öðlast gildi frá þeim tíma þegar hún er samþykkt á aðalfundi.

5.2 Lög þessi skulu ætíð birt á heimasíðu félagsins þar sem öllum félagsmönnum er heimilaður aðgangur.

Lög samþykkt á aðalfundi í Reykjavík þann 21. október 2019.