Hér eru svör framboða í Reykjavík um stefnu þeirra í samgöngu- og skipulagsmálum. Smelltu á nafn framboðsins til að hoppa beint á svörin.

Björt Framtíð | Dögun | Framsókn og flugvallarvinir | Píratar
Samfylkingin | Sjálfstæðisflokkurinn | Vinstri græn

Björt Framtíð

 1. Hvernig ætlið þið að koma til móts við fólk sem kýs umhverfisvænan og heilsusamlegan ferðamáta þannig að það njóti þess samfélagslega sparnaðar sem af honum hlýst?
  Göngugötur, hjóla- og göngustígar, endurhönnun gatna, bættar almenningssamgöngur, aukið eftirlit með bílum á gangstéttum, hjólastígum og opnum svæðum, gjald fyrir bílastæði taki mið af raunkostnaði. Halda áfram að vinna í vegaframkvæmdum sem þjóna öllum ferðamátum frekar en risastórum mannvirkjum eins og mislægum gatnamótum sem fyrst og fremst þjóna einkabílnum.
 2. Hvernig ætlið þið að efla almenningssamgöngur í ykkar sveitarfélagi?
  Fjölga forgangsreinum Strætó, fjölga greiðslumátum (app), ganga á eftir ríkinu að það uppfylli samgöngusamninginn, auka tíðni ef kostur er, lengja aksturstíma þar sem þörf er.
 3. Hvernig má auka hlut hjólreiða í ykkar sveitarfélagi?
  Mikið hefur þegar verið gert, t.d. hjólreiðaáætlunin, enn verið að vinna eftir henni. Styðja þá sem vilja bjóða upp á city bikes, halda áfram með átök eins og samgönguvikuna og hjólað í vinnuna.
 4. Hverjar eru stærstu áskoranirnar í samgöngumálum í ykkar sveitarfélagi?
  Almennt og heilt yfir að jafna hlut þeirra sem kjósa að ganga, hjóla og taka strætó við hlut einkabílsins, en þar er mikið ójafnvægi. Mikið mun fást með nýsamþykktu aðalskipulagi og hverfaskipulagsvinnunni sem er nýhafin.

Dögun

 1. Hvernig ætlið þið að koma til móts við fólk sem kýs umhverfisvænan og heilsusamlegan ferðamáta þannig að það njóti þess samfélagslega sparnaðar sem af honum hlýst?
  Í áherslum Dögunar í Reykjavík er lögð áhersla á það að „almenningssamgöngur verði stórefldar í Reykjavík“ Einnig vill framboðið að aðstaða fyrir hjólandi og gangandi verði bætt.

  Þetta mun verða til samfélagslegs sparnaðar þar sem ekki þarf þá að leggja í auknar stofnframkvæmdir vegna samgangna ef frá er skilin tillagna okkar um forgangsakreinar fyrir strætó.

  Aukning annarra fararskjóta en einkabílsins mun minnka mengun af völdum koltvísýrings og svifryks í borginni sem aftur lækkar kostnað vegna heilsutjóns vegna mengunar. Ennfremur munu auknar almenningssamgöngur og hjólreiðar minnka samgöngukostnað íbúanna.
 2. Hvernig ætlið þið að efla almenningssamgöngur í ykkar sveitarfélagi?
  Dögun í Reykjavík styður samkomulag Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Ögmundar Jónassonar, fyrrverandi innanríkisráðherra varðandi það að hætt verði við fyrirhugaðar stofnframkvæmdir í samgöngumannvirkjum á svæðinu gegn því að ríkið láti af hendi einn milljarð á ári til almenningssamgangna.
  Í áherslum Dögunar í Reykajvík segir ennfremur:
  “Með því að selja bílastæðahús borgarinnar og láta andvirðið renna í samgöngusjóð er hægt að styrkja almenningssamgöngur verulega. Reikna má með því að sala bílastæðahúsa gefi á fjórða milljarð króna til borgarinnar. Tillaga sem gerir þetta mögulegt rataði inn í samgöngufrumvarp sem enn er óafgreitt. Til þess að gera bílastæðahúsin að markaðsvöru þarf sennilega að hækka bílastæðagjöld í miðbænum”
 3. Hvernig má auka hlut hjólreiða í ykkar sveitarfélagi?
  Með því að halda áfram uppbyggingu hjólareinar í borginni og auka á öryggi hjólreiðafólks.
 4. Hverjar eru stærstu áskoranirnar í samgöngumálum í ykkar sveitarfélagi?
  Að koma á nothæfum almenningssamgöngum. Eins og áður sagði er þetta ekki aðeins spurning um frjálst val heldur líka spurning um almennt jafnrétti þar sem hinir tekjulægri geti nýtt sér almenningssamgöngur til vinnu og einkaerinda og þannig sleppt því að reka einkabíl.
  Það er um leið, að mati Dögunar í Reykjavík mikilvægt að átta sig á því að samgöngumál eru umhverfismál. Einkabíllinn er mesti mengunarvaldur borgarinnar. Því segir í áherslum framboðsins“ „Tekið verði á svifryksmengun með auknum almenningssamgöngum, sem svo leiða af sér minni umferð einkabíla. Gjald verði sett á nagladekk, þrif á götum verði tíðari og umferðarhraði á stofnbrautum og tengibrautum verði lækkaður.”

Framsókn og flugvallarvinir

 1. Hvernig ætlið þið að koma til móts við fólk sem kýs umhverfisvænan og heilsusamlegan ferðamáta þannig að það njóti þess samfélagslega sparnaðar sem af honum hlýst?
  Við erum alls ekki á móti bíllausum lífstíl og viljum eindregið hvetja fólk til þess að nýta sér þann ferðamáta bæði heilsunnar vegna og vegna umhverfissjónarmiða. Við viljum hinsvegar ekki gera það á kostnað einkabílsins heldur á fólk að hafa val.Við viljum gjarnan fá hugmyndir frá ykkur og gera þetta í samráði við hlutaðeigandi aðila.
 2. Hvernig ætlið þið að efla almenningssamgöngur í ykkar sveitarfélagi?
  Við viljum leggja áherslu á aukinn frístundaakstur í samstarfi við skóla og íþróttafélög. Einnig viljum skoða betur leiðarkerfi strætó og reyna leiða það til betri vegar.
 3. Hvernig má auka hlut hjólreiða í ykkar sveitarfélagi?
  Með áframhaldandi hvatnigu til notkunar slíks ferðamáta og með góðu fordæmi í lífstílsviðhorfum hjólreiðafólks. Átak eins eins og hjólað í vinnuna er til fyrirmyndar.
 4. Hverjar eru stærstu áskoranirnar í samgöngumálum í ykkar sveitarfélagi?
  Þær eru að auka flæði, auðvelda fólki að komast á milli A og B. Umferðaröryggi og umferðarhagkvæmni. Að fólk geti valið þann ferðamáta sem hentar þeirra lífstíl og fjölskyldugerð.

Píratar

 1. Hvernig ætlið þið að koma til móts við fólk sem kýs umhverfisvænan og heilsusamlegan ferðamáta þannig að það njóti þess samfélagslega sparnaðar sem af honum hlýst?
  Okkur þykir eðlilegast að byrja á því að Reykjavíkurborg sýni aukið frumkvæði í að hvetja sína starfsmenn til þess að nota umhverfisvæna og heilsueflandi ferðamáta. Borgin hefur lengi státað sig af því að gera það, en raunin er sú að það á eingöngu við á fremur útvöldum starfsstöðvum. Hinn almenni starfsmaður borgarinnar fær litla hvatningu til þess hins sama.Okkur þykir það afar undarlegt, sér í lagi í ljósi þess kostnaðar sem leggst á borgina fyrir það að gera það ekki. Hér er flott tækifæri til að spara OG bæta samfélagið á sama tíma.
 2. Hvernig ætlið þið að efla almenningssamgöngur í ykkar sveitarfélagi?
  Hér vísum við í samþykkta stefnu Pírata í Reykjavík um skipulags- og samgöngumál sem má finna hér. Í grófum dráttum felur þessi stefnumörkun í sér að jafna aðgengi að öllum samgöngumátum án þess þó að gera ganga beinlínis á einkabílinn. Sér í lagi er okkur annt um það að bíleigendur noti almenningssamgöngur líka. Með því móti má draga stórkostlega úr álagi á götur borgarinnar og greiða fyrir umferð gangandi og hjólandi.
 3. Hvernig má auka hlut hjólreiða í ykkar sveitarfélagi?
  Það er aðallega tvennt. Þétting byggðar og skipulagning umferðarmannvirki með tilliti til hjólandi umferðar. Það sem vantar helst upp á er aukið samstarf við hjólandi notendur umferðarmannvirkjanna. Píratar standa fyrir aukinni þátttöku almennings í ákvarðanatöku.
 4. Hverjar eru stærstu áskoranirnar í samgöngumálum í ykkar sveitarfélagi?
  Við teljum að með stærstu áskorunum sé að minnka notkun einkabílsins. Fjölmargir bílstjórar myndu kjósa að nýta almenningssamgöngur meira, og þar með leggja einkabílnum að hluta til, en geta ekki réttlætt það fjárhagslega þar sem þeir eru ekki tilbúnir til að leggja bílnum alveg. Sú staða veldur því að einkabíllinn verður ofan á, því það er hreinlega ódýrara. Við sjáum fyrir okkur að breytt greiðslufyrirkomulag í strætó gæti bætt þessa stöðu, t.a.m. með því að taka upp sambærilegar lausnir og Oystercard í London. Með því móti er stigvaxandi afsláttur gefinn eftir fjölda fargjalda sem síðan renna út.

Samfylkingin

 1. Hvernig ætlið þið að koma til móts við fólk sem kýs umhverfisvænan og heilsusamlegan ferðamáta þannig að það njóti þess samfélagslega sparnaðar sem af honum hlýst?
  Samfylkingin telur mikilvægt að greiða götu þeirra sem nýta sér umhverfisvæna ferðamáta. Það er bæði hagkvæmt fyrir hvern og einn og fyrir samfélagið að sem flestir taki strætó, hjóli eða gangi. Þess vegna leggjum við áherslu á að opinberar stofnanir og einkafyrirtæki taki upp metnaðarfulla samgöngustefnu og greiði þeim starfsmönnum sínum sem nota vistvæna ferðamáta sérstaka, skattfría samgöngustyrki.
 2. Hvernig ætlið þið að efla almenningssamgöngur í ykkar sveitarfélagi?
  Samfylkingin stóð fyrir því að gerður var tímamótasamningur árið 2012 milli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem felur í sér að ríkið setur tæplega einn milljarð á ári til tíu ár í almenningssamgöngur. En betur má ef duga skal. Við viljum efla strætó með forgangsreinum svo strætófarþegar þurfa aldrei að sitja fastir í umferðinni. Við viljum tryggja að strætó sé hraðvirkur og þægilegur ferðamáti í borginni og að hann gangi meðal annars að helstu íþrótta og frístundamannvirkjum í hverfunum. Við viljum einnig gera átak í byggingu strætóskýla.
 3. Hvernig má auka hlut hjólreiða í ykkar sveitarfélagi?
  Samfylkingin leggur mikla áherslu að auka hlut hjólreiða í borginni. Leiðin til þess að er að fjölga hjólastígum og útbúa betri aðstöðu fyrir hjólafólk á áfangastöðum. Undanfarin ár hefur grettistaki verið lyft í gerð hjólastíga. Þar skipti sköpum samningur sem sveitarfélögin, undir forystu Dags B. Eggertssonar, gerðu við vegagerðina um að borga helming kostnaðar við hjólastíga á völdum stöðum. Og við erum rétt að byrja. Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur gerir ráð fyrir að hjólastígar í borginni verði 100 km árið 2020. Í ár verður settur hálfur milljarður í gerð hjólastíga í borginni.
 4. Hverjar eru stærstu áskoranirnar í samgöngumálum í ykkar sveitarfélagi?
  Samfylkingin vill tryggja að Reykvíkingum bjóðist fjölbreyttar lausnir og valkostir í samgöngumálum. Í nýju aðalskipulagi er stefnt að því að árið 2030 verði minnst 42% allra ferða í Reykjavík farnar gangandi, hjólandi eða í strætó. Það verður stærsta áskorunin í samgöngumálum borgarinnar næstu misserin. Í dag er þetta hlutfall 30%.

SjálfstæðisflokkurinnSjálfstæðisflokkurinn

 1. Hvernig ætlið þið að koma til móts við fólk sem kýs umhverfisvænan og heilsusamlegan ferðamáta þannig að það njóti þess samfélagslega sparnaðar sem af honum hlýst?
  Við leggjum áherslu á grænni, jákvæðari, skilvirkari og öruggari borg. Við viljum að fólk hafi raunverulegt val í samgöngum, hvort sem ferðamátinn er bíll, hjól, ganga eða almenningssamgöngur.
 2. Hvernig ætlið þið að efla almenningssamgöngur í ykkar sveitarfélagi?
  Við ætlum að endurskoða leiðakerfi Strætó, finna staðsetningu fyrir skiptistöð sem mun fækka skiptingum. Það þarf að bæta tengingar milli hverfa til muna. Þá munum við betrumbæta strætóskýli á fjölmennustu stoppistöðvum svo þær verði raunverulegt skjól gegn veðri og vindum.. Við munum lengja þjónustutíma Strætó.
 3. Hvernig má auka hlut hjólreiða í ykkar sveitarfélagi?
  Við viljum að borgarbúar hafi raunverulegt val í samgöngum og við munum vinna jafnt og þétt af því að byggja upp alla samgöngukostina. Borgin býr yfir mörgum góðum hjólaleiðum fyrir hjólreiðafólk en á ýmsum stöðum borgarinnar má hlúa betur að hjólreiðafólki og það viljum við gera.
 4. Hverjar eru stærstu áskoranirnar í samgöngumálum í ykkar sveitarfélagi?
  Það er stór áskorun að bæta flæði í umferðinni í borginni. Í Reykjavík myndast nú umferðarhnútar og flöskuhálsar á of mörgum stöðum og útblástur og mengun eru oft yfir heilbrigðismörkum. Úr þessu verður að bæta. Við munum setja það í forgang að ná góðu flæði en umferðaröryggið verður alltaf í fyrirrúmi. Hægt er að nota fjölbreyttar leiðir. Stýra þarf umferðarhraða, gera verður helstu leiðir greiðfærari og fækka tíðni bíla í lausagangi með tilheyrandi mengun, bæta verður við göngubrúm, hringtorgum, vistgötum og fjölga forgangsakreinum fyrir strætó. Við munum merkja gangbrautir eins og lög kveða á um en það hefur ekki verið gert. Áfram verði unnið að því að draga úr notkun nagladekkja og áfram þarf að vinna að því að draga úr svifryki. Loftgæði og öryggi verða að vera í fyrirrúmi.

Vinstrihreyfingin – grænt framboðVinstri hreyfingin - grænt framboð

 1. Hvernig ætlið þið að koma til móts við fólk sem kýs umhverfisvænan og heilsusamlegan ferðamáta þannig að það njóti þess samfélagslega sparnaðar sem af honum hlýst?Fólk sparar umtalsverðan hluta ráðstöfunartekna sinna ef það kýs að nota ekki einkabíl. Það er auðvitað löngu tímabært sanngirnismál að endurskoða fyrirkomulag akstursgreiðslna og taka upp fjölbreyttari samgöngustyrki. Fyrst og fremst græðum við öll á þeim samfélagslega sparnaði sem hlýst af umhverfisvænni samgönguháttum. Minni mengun, meira mannlíf, aukin nærþjónusta, meiri félagsauður og aukið fjármagn til annarra samfélagslegra verkefna ætti í sjálfu sér að vera hvati fyrir okkur öll.
 2. Hvernig ætlið þið að efla almenningssamgöngur í ykkar sveitarfélagi?
  Skynsamleg þétting byggðar er lykilatriði ef við ætlum að breyta samgönguháttum í Reykjavík. Dreifð byggð kallar á lengra, flóknara og dýrara leiðarkerfi en ef landið er nýtt með skynsamlegum hætti.

  Vinstri græn leggja þó áherslu á bætta á þjónustu strax, jafnvel þótt markmið um þéttingu byggðar séu ekki orðin að veruleika. Strætó þarf að ganga á sunnudagsmorgnum, hátíðisdögum og lengur á kvöldin. Það þarf að bjóða upp á fjölbreyttari greiðslumáta í vögnunum og samræma betur skiptivagna og tengileiðir.

  Sérstaklega er brýnt að aðlaga þjónustu strætó betur að þörfum barna, þau eiga að geta reitt sig á hann í ferðum sínum til frístunda eftir skóla. Það er alger óþarfi að íþróttafélögin reki eigið samgöngukerfi.

  Að bæta strætó er samfélagslega hagkvæmt, enda mun ódýrara en að reka þau umferðarmannvirki sem einkabíllinn myndi kalla á annars.
 3. Hvernig má auka hlut hjólreiða í ykkar sveitarfélagi?
  Þá er rétt að ítreka að skynsamleg þétting byggðar er lykilatriði ef við ætlum að breyta samgönguháttum. Þannig styttum við vegalengdir og ferðalög fólks milli staða og aukum líkurnar á að það velji sér heldur göngu eða hjólreiðar en einkabílinn.Vinstri græn leggja áherslu á að halda áfram lagningu hjólreiðastíga og uppbyggingu stíganets sem borgarbúar geta reitt sig á allan ársins hring. Best er að koma á hjólreiðastígum að danskri fyrirmynd þar sem því verður við komið.

  Hönnun gatna og stíga skiptir máli. Það er mikilvægt að fólk upplifi sig öruggt og að umhverfið sé fallegt og gott. Þannig gerum við göngu og hjólreiðar eftirsóknarverðari fararmáta.

  Það sama gildir um hjólreiðar og almenningssamgöngur, að leggja traust hjólreiðastíganet um borgina er samfélagslega hagkvæmt, enda mun ódýrara en að reka þau umferðarmannvirki sem einkabíllinn myndi kalla á annars.
 4. Hverjar eru stærstu áskoranirnar í samgöngumálum í ykkar sveitarfélagi?
  Breyttir samönguhættir snúast fyrst og fremst um hugarfarsbreytingu. Það hefur mikið gerst á undanförnum árum, það er mjög stutt síðan Vinstri græn þóttu skrýtin og einstrengingsleg að tala fyrir hjólreiðum í kuldanum á Íslandi, en sem betur fer hafa viðhorfin breyst og nokkuð þverpólitísk samstaða náðst um málið.

  Fyrst og fremst verðum við að halda áfram að sannfæra fólk um kosti umhverfisvænna samgönguhátta og við ætlum að halda áfram að tala fyrir fjölbreyttum og umhverfisvænum samgöngum á vettvangi borgar og ríkis.
 5. Þökkum Jeremy Brooks kærlega fyrir ljósmyndina hér fyrir ofan.