Kosningar 2014: Akureyri

Hér eru svör framboða í Akureyri um stefnu þeirra í samgöngu- og skipulagsmálum. Smelltu á nafn framboðsins til að hoppa beint á svörin.

Framsóknarflokkurinn | Vinstri græn

Framsóknarflokkurinn

 1. Hvernig ætlið þið að koma til móts við fólk sem kýs umhverfisvænan og heilsusamlegan ferðamáta þannig að það njóti þess samfélagslega sparnaðar sem af honum hlýst?
  Við höfum ekki markað ákveðna stefnu í þessu en hins vegar er í stefnuskrá okkar að maí mánuður ár hvert verði nýttur í sérstakt átak sem við viljum nefna: „Akureyri á iði“. Við viljum nota það átak til að hvetja fólk til hreyfingar og m.a. að nota umhverfisvænar samgöngur. Hugmynd okkar er að sveitarfélagið greiði launþegum samgöngustyrk í þeim mánuði gegn því að sleppa einkabílnum í og úr vinnu.
   
 2. Hvernig ætlið þið að efla almenningssamgöngur í ykkar sveitarfélagi?
  Við hér á Akureyri búum svo vel að strætisvagnasamgöngur eru fríar. Við viljum á komandi kjörtímabili skoða hvort hægt er að auka tíðni og þjónustu með breytingum á leiðarkerfi.
   
 3. Hvernig má auka hlut hjólreiða í ykkar sveitarfélagi? Við teljum að það sé hægt með samstilltu átaki og áhuga sem við hvetjum til með átakinu Akureyri á iði. Eitt hefur verið þröskuldur í almennri reiðhjólanotkun hér í bæ en það eru brekkur. Við viljum skoða hvort hægt sé að koma upp toglyftu fyrir hjólreiðafólk til að auðvelda fólki að ferðast upp bröttustu brekku bæjarins og draumurinn væri að við gætum komið upp slíkri toglyftu yfir sumarmánuðina að því gefnu að kostnaður við slíkt sé raunhæfur. Við viljum jafnframt halda áfram uppbyggingu hjólreiða- og göngustíga í bæjarlandinu og í tengingu við nágrannasveitarfélögin
   
 4. Hverjar eru stærstu áskoranirnar í samgöngumálum í ykkar sveitarfélagi?
  Stærsta áskorun okkar í samgöngumálum er að skipuleggja Oddeyrina og þétta byggð og reyna með því að draga úr bílaumferð.

Vinstri hreyfingin – grænt framboðVinstri hreyfingin - grænt framboð

 1. Hvernig ætlið þið að koma til móts við fólk sem kýs umhverfisvænan og heilsusamlegan ferðamáta þannig að það njóti þess samfélagslega sparnaðar sem af honum hlýst?
  Við í Vinstri grænum erum svo heppin að eiga oddvita sem stundar bíllausan lífsstíl auk þess sem fjölmargir aðrir frambjóðendur VG nýta sér strætó, hjólreiðar og göngu til daglegra ferða ásamt einkabíl þegar við á. Þess vegna höfum við fullan skilning á þörfum fólks fyrir aðrar samgönguleiðir en einkabíla og viljum stuðla að þeim auk þess að auka upplýsingagjöf og hvetja fyrirtæki bæjarins til að gera samgöngusamninga en þar á stærsti vinnustaðurinn, Akureyrarbær, að vera í fararbroddi.

  Mikilvægt er að koma þeirri hugsun að í bæjarkerfinu að mikilvægt sé að taka alltaf mið af vistvænum samgöngum þegar ný samgöngumannvirki eða byggingarland er skipulagt.
  Einnig þarf að breyta forgangsröðun í snjómokstri og leggja áherslu á að moka helstu göngu- og hjólaleiðir í upphafi dags svo hægt sé að komast leiðar sinnar í vinnu og skóla á réttum tíma.
 2. Hvernig ætlið þið að efla almenningssamgöngur í ykkar sveitarfélagi?
  Það þarf að samræma leiðarkerfi strætó við tómstundarstarf barna. Auk þess þarf að bæta við ferðum að útivistarparadísum okkar að Hömrum og Kjarnaskógi og í leiðinni að flugvellinum. Mikilvægt er að hjólreiðafólk geti nýtt sér strætó, t.d. er hægt að setja hjólastatíf utan á vagnana en það er gert víða um heim.
 3. Hvernig má auka hlut hjólreiða í ykkar sveitarfélagi?
  Við viljum að stofnkerfi aðskildra hjólastíga verði smátt og smátt komið upp því það dregur úr slysahættu. Víða þarf ekki miklu að kosta til og má þar nefna götur sem eru breiðar og hafa verið gerðar að 30km götum verði mjókkaðar með hjólastígamerkingum.
 4. Hverjar eru stærstu áskoranirnar í samgöngumálum í ykkar sveitarfélagi?
  Snjómokstur á stígum, leiðarkerfi og þjónusta strætó og að breyta hugsun í skipulagsmálum.