Breytingar á vef

Sem hluti af breytingum sem standa yfir á vef samtakanna hefur hann verið færður í nýtt kerfi. Allt efni gamla vefsins ætti að vera aðgengilegt hér í þægilegra viðmóti.

Við munum halda áfram að vinna í vefnum á næstunni, uppfæra úreltar upplýsingar og laga skipulag. Allar ábendingar og tillögur um efni eru að sjálfsögðu vel þegnar og við biðjum ykkur að koma þeim á framfæri í athugasemdum hér fyrir neðan eða á netfangið billaus hjá billaus.is.

Vefur kominn aftur upp

Eftir að hafa legið niðri í nokkurn tíma vegna netárása á hluta vefsvæðisins er vefurinn komin upp aftur í nær óbreyttri mynd. Hafið þó engar áhyggjur, því nýr vefur er í vinnslu þótt hann hafi frestast dálítið er ráðgert að setja hann í loftið á næstunni.

Við hverjum ykkur til að taka virkan þátt í umræðum um starf samtakanna í Facebook-hópnum okkar. Þar myndast oft líflegar umræður.

Lifið heil!

Fréttatilkynning frá Keðjuverkun

Borist hefur eftirfarandi fréttatilkynning:

Reiðhjólaunnendur nær og fjær.

Keðjuverkun stefnir á að opna hjólanýtinguna yfir sumarmánuðina á nýjum stað í hjarta borgarinnar. Fyrir ykkur sem ekki vita þá er Keðjuverkun svokallað kollektív sem var stofnað í fyrrasumar. Meira um Keðjuverkun hér:

http://kedjuverkun.org/info/

Við björgum hjólum sem eru á haugunum eða á leiðinni þangað og breytum þeim í einföld götuhjól eða gerum þau upp. Síðasta sumar fór fjöldi hjóla frá Keðjuverkun aftur á götuna sem annars hefðu lent í hjóla-grafreitnum, Eldhús Fólksins eldaði mat, hljómsveitir héldu tónleika og gestir lásu róttækar bókmenntir á Andspyrnu bókasafninu.

Staðurinn sem Keðjuverkun er að skoða er með stóran bakgarð og lítið rými innandyra. Staðurinn er í alfaraleið og mjög sýnilegur frá göngugötum miðbæjarins og því gæti orðið mikil traffík í gegnum hjólanýtinguna. Við lærðum mikið af síðasta sumri, allt sem vel var gert og það sem betur má fara, og hefst því endurskipulagning á kollektívinu í heild sinni.

Afhverju þurfum við hjóla kollektív?

 • Það er hægt að búa bíllaus á höfuðborgarsvæðinu og nota almenningssamgöngur aðeins að hluta til. Við sem róttæk hreyfing getum haft áhrif á hvernig þessu er háttað.
 • Það er sjálfhvetjandi að setja saman sitt eigið hjól frá grunni og hvergi er sameiginleg aðstaða til að gera það á Íslandi (að okkur vitandi).
 • Getur verið að þú þurfir ekki 100 þúsund króna tuttugu og eins gíra fjallahjól með dempurum og vökvastýri til að hjóla? Kannski er einfalt og ódýrt eins gíra hjól nóg sem bilar nánast aldrei? Gangi þér vel að finna það í hjólaverslunum.
 • Heill haugur af fjallahjólum enda í ruslinu á hverjum degi og við erum að sækja þau. Þau þurfa smávægislagfæringu til að komast aftur á götuna eða með því að breyta þeim í einföld eins gíra hjól sem virka.
 • Hjólaviðgerðar-stereotípuna þarf að útrýma. Það er ekki nauðsynlegt að vera gagnkynhneigður né með getnaðarlim til að læra hjólaviðgerðir.

Hér eru dæmi um hvað við gerum sem hjóla-kollektív

 • Tökum við hjólum sem annars færu í ruslið og strípum þau. Hjólapartar eru flokkaðir á sinn stað.
 • Aðstoða fólk við að gera við sín eigin hjól og að nota varahluta-lagerinn til að skipta út biluðum pörtum
 • Halda úti ákveðnum fjölda hjóla til útláns til gesta sem vilja fá hjól lánað yfir daginn gegn frjálsum framlögum.
 • Dreifa flyerum og hengja upp póstera
 • Skipuleggja tónleika í garðinum, Critical Mass hjólaferðir og annað sem áhugi er fyrir.
 • Að kynna og viðhalda leiðtogalausu umhverfi þar sem rödd allra hefur hljómgrunn.

Þú þarft ekki að vera sjófær í hjólaviðgerðum til að vera hluti af verkefninu. Áhugi er það eina sem þarf.

Við munum halda fund á Kaffi Rót í Hafnarstræti 17 á þriðjudaginn klukkan 19:00.

Sendið okkur póst á info@kedjuverkun.org ef komið á fundinn.

Keðjuverkun – Hjólanýting

www.kedjuverkun.org

 

Bogotá Change

Á kvikmyndahátíðinni Reykjavík Shorts & Docs sem nú stendur yfir í Bíó Paradís er meðal annars sýnd heimildarmyndin Bogotá Change eftir Andreas Dalsgaard.

Myndin er „áhugaverð saga um tvo borgarstjóra í Bogotá, Antanas Mockus og Enrique Peñalosa, sem eru báðir gæddir miklum persónutöfrum hvor á sinn hátt. Á innan við 10 árum breyttu óhefðbundnar og skapandi aðferðir þeirra einni hættulegustu og spilltustu borg heims í friðsama fyrirmyndarborg.“

Kvikmyndin verður sýnd í kvöld, mánudagskvöldið 31. janúar kl. 18:00. Hér má sjá brot úr myndinni.

Aðalfundur 2010

 

Aðalfundur samtaka um bíllausan lífsstíl verður haldinn í Útgerðinni, Grandagarði 16, Reykjavík, þriðjudaginn 26. október næstkomandi. Á dagskrá eru venjubundin aðalfundarstörf. Hans Heiðar Tryggvason, verkefnastjóri hjá umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar mun halda erindi. Hans var meðal þeirra sem stýrðu tilrauninni með hjólastíginn á Hverfisgötu og lokunum í miðbænum í sumar. Hann mun ræða þessi verkefni stuttlega.

Magnús Jensson formaður samtakanna mun einnig halda stutt erindi. Allir velkomnir.

Skv. lögum samtakanna verða tekin fyrir eftirfarandi mál:

1. Ársskýrsla um störf stjórnar

(2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram)

3. Kosningar til stjórnar

4. Lagabreytingar

5. Önnur mál

Á aðalfundinum verður m.a. kosið í stjórn samtakanna. Eftirfarandi stöður eru auglýstar: Formaður, ritari, gjaldkeri, tveir meðstjórnendur og tveir varamenn.

Þeir sem hyggja á framboð láti vinsamlega vita af sér á netfangið billaus hjá billaus.is