Eitt hundrað manns á stofnfundinum.

Yfir hundrað manns mættu á stofnfundinn í Ráðhúsi Reykjavíkur í gærkvöldi.  Lögin voru samþykkt með þeirri breytingu að bætt var við embættum tveimur varamanna í stjórn. Að því búnu var stjórn kjörin. Hana skipa Sigrún Helga Lund, formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir, ritari, Anna Karlsdóttir, gjaldkeri og Sigrún Ólafsdóttir og Ásbjörn Ólafsson eru meðstjórnendur. Varamenn í stjórn eru Benedikt Steinar Magnússon og Birgir Þór Birgisson.

 Kynntir voru fimm starfshópar: Um málefni strætó, hjólreiðar, gangandi vegfarendur, skipulagsmál og starfsmannasamninga fyrirtækja og stofnana. En það skal ítreka að starfið er enn í mótun og félagsmenn eru hvattir til að koma með hugmyndir að skemmtilegu hópastarfi. Undir hlekknum „Hafið samband“ hér til vinstri“ má finna netföng hópanna ef einhverjir áhugasamir vilja fylgjast með eða taka þátt í starfinu.

 Þremur fyrirtækjum voru veittar viðurkenningar fyrir að gera bíllausan lífsstíl að raunhæfum valkosti með samgöngusamningi við starfsmenn sína. Þau eru verkfræðistofan Mannvit, Fjölbrautarskólinn við Ármúla og Reykjavíkurborg.

 Eftir fundinn var haldið á Vínbarinn og nokkur vel valin mál brotin til mergjar.

 

Stofnfundur samtakanna

Stofnfundur Samtaka um bíllausan lífsstíl verður í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur, miðvikudaginn 17. september kl. 20:00.

Á stofnfundi verður kosið í stjórn,
lög samþykkt og fyrirhuguð starfsemi kynnt. Hér með er auglýst eftir framboðum í fimm manna stjórn, þ.e. formann, ritara, gjaldkera og tvo meðstjórnendur og hvetjum við þá sem hafa áhuga að hafa samband við
Sigrúnu (shl1 hjá hi.is).

Mjög mikilvægt er að áhugasamir fjölmenni á fundinn og sýni málefninu stuðning.

Bendi á að drög að lögum félagsins eru komin

hér
inn á síðuna.

Gott framtak hjá Mosfellsbæ

Bæjarhátið Mosfellsbæjar, Í túninu heima, stendur yfir nú um helgina. Af því tilefni býður Mosfellsbær öllum frítt í leið 15 á morgun, laugardaginn 30. ágúst. 
 
Við fögnum góðu framtaki Mosfellsbæjar og viljum hvetja alla til að nýta tækifærið til að hoppa í  leið 15, sem gengur á hálftíma fresti, og kíkja á fjölbreytta dagskrána á morgun.