Allar færslur eftir Ritstjórn vefsins

Eitt hundrað manns á stofnfundinum.

Yfir hundrað manns mættu á stofnfundinn í Ráðhúsi Reykjavíkur í gærkvöldi.  Lögin voru samþykkt með þeirri breytingu að bætt var við embættum tveimur varamanna í stjórn. Að því búnu var stjórn kjörin. Hana skipa Sigrún Helga Lund, formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir, ritari, Anna Karlsdóttir, gjaldkeri og Sigrún Ólafsdóttir og Ásbjörn Ólafsson eru meðstjórnendur. Varamenn í stjórn eru Benedikt Steinar Magnússon og Birgir Þór Birgisson.

 Kynntir voru fimm starfshópar: Um málefni strætó, hjólreiðar, gangandi vegfarendur, skipulagsmál og starfsmannasamninga fyrirtækja og stofnana. En það skal ítreka að starfið er enn í mótun og félagsmenn eru hvattir til að koma með hugmyndir að skemmtilegu hópastarfi. Undir hlekknum „Hafið samband“ hér til vinstri“ má finna netföng hópanna ef einhverjir áhugasamir vilja fylgjast með eða taka þátt í starfinu.

 Þremur fyrirtækjum voru veittar viðurkenningar fyrir að gera bíllausan lífsstíl að raunhæfum valkosti með samgöngusamningi við starfsmenn sína. Þau eru verkfræðistofan Mannvit, Fjölbrautarskólinn við Ármúla og Reykjavíkurborg.

 Eftir fundinn var haldið á Vínbarinn og nokkur vel valin mál brotin til mergjar.

 

Stofnfundur samtakanna

Stofnfundur Samtaka um bíllausan lífsstíl verður í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur, miðvikudaginn 17. september kl. 20:00.

Á stofnfundi verður kosið í stjórn,
lög samþykkt og fyrirhuguð starfsemi kynnt. Hér með er auglýst eftir framboðum í fimm manna stjórn, þ.e. formann, ritara, gjaldkera og tvo meðstjórnendur og hvetjum við þá sem hafa áhuga að hafa samband við
Sigrúnu (shl1 hjá hi.is).

Mjög mikilvægt er að áhugasamir fjölmenni á fundinn og sýni málefninu stuðning.

Bendi á að drög að lögum félagsins eru komin

hér
inn á síðuna.

Spurning um tíma.

Matarboð hjá ömmu í Mosó á miðvikudegi. Hjörðin þreytt og pirruð eftir langan vinnu/leikskóladag í Vesturbænum. Hvers vegna að þvælast í 37 mínútur með strætó þegar maður er ekki nema 25 mínútur á leiðarenda með einkabíl? Skoðum dæmið aðeins nánar.

Fimmtánin gengur á korters fresti svo þegar börnin eru komin í útifötin er eingöngu spurning um hve margar sveiflur nást í rólunni áður en rölt er 200 metra að næstu stoppustöð. Í vagninum rifjar yngri daman upp hvað allir sniðugu staðirnir á andlitinu hans pabba heita á meðan allur líkami eldri dömunnar dugir tæpast til að lýsa mikilfenglegu risaeðlumatarboði vinkvennana á deildinni fyrir mömmu.

Ekkert -„æ, já elskan, mamma getur ekki séð núna“ og allir hálsliðir á sínum stað.

Um leið og einhverjum er heitt er lítið mál að stinga úlpunni undir barnavagninn og hver veit nema þar leynist nokkrar rúsínur ef einhver er svangur.

Í Mosfellsbænum þiggur móðirinn annan kaffibolla með þökkum, því litla skottan mun ekki rumska þegar barnavagninn fer upp í þann stóra gula. Stóra stelpan sofnar í fanginu hans pabba á leiðinni heim, sem fer létt með að bera hana inn í rúm, því þessi fjölskylda er svo heppin að strætó stoppar á næsta horni.

Án þess að hika velur fjölskyldan Strætó, því þegar allt kemur til alls er þetta bara spurning um tíma. Hvernig við kjósum að verja þeim mínútum sem okkur eru gefnar.

Stofnun formlegra samtaka

Nú hafa yfir 1000 manns skráð sig í hópinn Samtök um bíllausan lífsstíl og tími til kominn að gefa þeim líf utan Facebook.

Miðvikudaginn 20. ágúst kl. 20:30, á efri hæðinni á Kaffi Sólon, verður undirbúningsfundur fyrir alla þá sem vilja leggja hönd á plóginn (eða orð í belg) við stofnun formlegra samtaka. 

Ég vonast til að sjá ykkur sem flest.

Kv. Sigrún Helga Lund.

Snjómokstri hætt á fimmtudögum

Hvers vegna lesum við ekki fréttir af því að menn hugleiði að skera niður snjómokstur á fimmtudögum vegna aukins bensínkostnaðar? Eða að Reykjanesbrautin opni seinna um  helgar vegna langvarandi halla á rekstri hennar?

Menn gera ekki sérstakar kröfur á að vegakerfið skili hagnaði eða standi undir sér. Viðbrögð við auknum kostnaði vegna snjómoksturs, vegaframkvæmda eða uppsetningu umferðarmerkja eru oftast þau að bíta á jaxlinn og láta sig hafa það, það dettur engum í hug að fækka vegum, skera niður þjónustu á þeim, fækka umferðarljósum eða loka vegunum á ákveðnum tímum sólarhringsins.

Það þykir hins vegar alveg sjálfsagt að fækka ferðum, byrja aka síðar um helgar eða leggja niður leiðir þegar almenningssamgöngur enda röngum megin við núllið. Og auðvitað er gott að mönnum sé umhugað um almannafé. Hins vegar er spurning hvort ekki sé réttara að líta hækkun á olíu sem sóknarfæri fyrir almenningssamgöngur fremur en enn eina ástæðuna til að skera þær niður.

– Pawel Bartoszek.

Stefnuskrá

Samtök um bíllausan lífsstíl er hópur fólks sem hefur að sameiginlegu áhugamáli að vinna að því að gera bíllausan lífsstíl á höfuðborgarsvæðinu að vænlegri kosti en nú er

Tilgangurinn er margþættur, allt frá því að hafa jákvæð áhrif á nærumhverfið og draga úr útblástursmengun og yfir það að skapa líflegra og mannvænna borgarumhverfi.

Í hópnum er fólk sem bæði lifir bíllausum lífsstíl og þeir sem gjarnan vildu gera það, ef aðstæður til þess væru betri.

Hópurinn er þverpólitískur, og leggur því meiri áherslu á að berjast fyrir réttindum þeirra er kjósa sér bíllausan lífsstíl fremur en sértækum og hugsanlega umdeilanlegum lausnum.

Hópurinn mun því berjast fyrir eftirfarandi atriðum: 

  • að borin sé virðing fyrir almannarými á borð við gangstéttir og torg, og að sektir fyrir ólöglega lögðum faratækjum séu sambærilegar á við það sem gerist í nágrannaborgum og að sektað sé allan tíma sólarhringsins,
  • að gætt þess verði að stofnæðar trufli sem minnst nærliggjandi byggð,
  • að draga úr niðurgreiðslum til handa bílandi á formi gjaldfrjálsra bílastæða við stofnanir, verslanir og fyrirtæki, óbeinnar gjaldtöku af umferðarmannvirkjum og hverju því sem dregur úr samkeppnishæfni annarra valkosta við einkabílinn,
  • að hvetja til þess að lagðir séu göngustígar og hjólabrautir með sambærilegum metnaði og götur fyrir bíla,
  • að umferðaræðar verði skipulagðar sem breiðstræti ekki síður en hraðbrautir þar sem við á,
  • að almenningssamgöngur fái sérakreinar á stofnæðum þar sem hætta er á biðraðamyndun og töfum,
  • að lögð verði enn meiri áhersla á skjólmyndun með trjágróðri en nú er.

Hópurinn mun einnig kynna kosti þess að lifa bíllausum lífsstíl fyrir þá sem ekki gera það í dag, hvaða áhrif það hefur á líf þess og nærumhverfi og hvetja fólk til að breyta um lífsstíl eftir fremsta megni.