Guðrún Jóhannesdóttir – kokka
Þann 1. mai er áætlað að Laugavegur og hluti Skólavörðustígs verði varanlega að göngugötum. Telurðu að sú breyting muni hafi áhrif á rekstur þinnar verslunar?
Göngugöturnar munu reyndar ekki ná upp að því svæði þar sem ég er með rekstur. Þær munu fyrst um sinn vera á sama svæði og undanfarin ár en það eru áforrn uppi um að stækka það svæði smám saman. Ég tel að meira pláss fyrir gangandi vegfarendur muni hafa jákvæð áhrif á allt mannlíf í miðbænum og þar með jákvæð áhrif á minn rekstur. Umferð gangandi hefur aukist mikið á undanförnum árum og við finnum hvað sú uppbygging sem hefur átt sér stað hefur haft góð áhrif.
Því hefur mikið verið haldið fram undanfarið að það sé svo erfitt að koma niður í bæ og að hér séu engin bílastæði. Því sé erfitt að laða að viskiptavini sem koma lengra að. Það er mikill misskilningur því hér er gnótt bílastæða. Í miðborginni eru rúm 1.100 stæði í bílastæðahúsunum og sá fjöldi mun tvöfaldast þegar Hafnartorg verður fullbyggt. Svo eru stæði í öllum hliðargötum svo það er aldrei langt að fara. Nú er strætó farinn að keyra aftur upp og niður Hverfisgötuna og þar er líka betri aðstaða fyrir hjólandi umferð.
Nú hefur kauphegðun breyst mikið á síðustu árum. Hefur þú gert ráðstafanir í markaðssetningu og uppsetningu verslunarinnar til að koma til móts við breytta viðskiptahætti? Ertu t.d. með netverslun?
Já, kauphegðun er að breytast mjög hratt og tæknin þróast ennþá hraðar. Við höfum verið með vefverslun frá árinu 2004 og sjáum stöðuga aukningu þar. Vefverslunin hefur alltaf verið okkar stærsti búðargluggi og ég vil meina að í dag sé mjög erfitt að koma vörum á framfæri ef þær eru ekki sjáanlegar á netinu. Stór hluti okkar viðskiptavina er búinn að skoða úrvalið á netinu áður en það kemur til okkar og vefverslunin er ástæða þess að þeir gera sér ferð.
Svo snýst verslun í dag ekki um afgreiðslu á vöru heldur góða þjónustu og stemmingu. Gestir miðbæjarins eru að sækjast eftir því að rölta um, upplifa og njóta. Ef þeir detta svo niður á eitthvað sem þá langar í, en nenna ekki að halda á pokanum, þá er alltaf hægt að senda heim. Við sjáum fólk nýta sér þá þjónustu í auknum mæli.

Stærsti verslunardagur ársins á Íslandi er óneitanlega á Þorláksmessu en þá hefurLaugavegi einnig verið lokað fyrir bílaumferð. Hefur það haft áhrif á verslun á þeim degi?
Mannfjöldinn í bænum á Þorláksmessu er svo mikill að það væri til vandræða að hafa bílaumferð, enda er almenningur hvattur til að nota aðra ferðamáta en einkabílinn þann daginn. Það er líka töluvert þægilegra að leggja innandyra í bílastæðahúsunum og rölta þaðan, þá þarf maður heldur ekki að skafa af bílnum eftir verslunarferðina. Verslunin okkar er troðfull á Þorláksmessu og stemningin er óviðjafnanleg.
Nú hefur Laugavegur og neðsti hluti Skólavörðustígs verið göngugata á sumrin. Hefur þú fundið fyrir breytingu í verslun á sumrin sem þú tengir beint við opnun sumargatna?
Nei, ekki beint. Þó höfum við fundið aukningu í umferð gangandi almennt og það eru ekki bara erlendir ferðamenn sem eru á röltinu þó því sé gjarnan haldið fram. Það hefur mest af gangandi umferð á göngugötusvæðinu og ég held hún muni dreifast betur upp Laugaveginn þegar svæðið stækkar.
Hvernig myndir þú vilja sjá þróunina í miðborginni? Hver er þín framtíðarsýn?

Ég er spennt fyrir þeirri framtíðarsýn að í miðborginni verði göngugötur allt árið. Ég tel mikilvægt á tímum mikilla breytinga að við tökum þátt í þeim breytingum. Það er ákall um meiri sjálfbærni og umhverfisvænni lífsstíl. Meira pláss fyrir fólk og minna pláss fyrir bíla. Þessa þróun má sjá um allan hinn vestræna heim þar sem stærri borgir eru að takmarka bílaumferð og auka vægi annara samgangna. Skoðanakannanir hafa líka sýnt að meirihluti íbúa á höfuðborgarsvæðinu eru hlynntir göngugötum. Ég hlýt að vilja bjóða upp á það sem viðskiptavinurinn kýs.
Annað sem þú vilt koma til skila?
Miðbærinn hefur þá sérstöðu að hér eru minni rekstareiningar, þú getur átt von á að hitta kaupmanninn við búðarborðið og það gerir þjónustuna persónulegri. Svo er hér mikið af hönnuðum og listamönnum sem bjóða hér afrakstur sinnar vinnu. Hér er líka hægt að gera allt í einni ferð. Versla, fara á kaffi- eða veitingahús, heimsækja lista- eða bókasafn og njóta mannlífs.
Samtök um bíllausan lífsstíl þakka Guðrúnu Jóhannesdóttur innilega fyrir gott spjall og við hvetjum fólk eindregið til að líta við hjá henni á leið sinni um Laugaveginn.