Hörður Ágústsson – Macland Laugavegi 23

Macland – Laugavegi 23

Þann 1. mai er áætlað að Laugavegur og hluti Skólavörðustígs verði varanlega að göngugötum. Telurðu að sú breyting muni hafi áhrif á rekstur þinnar verslunar?

Nei ég tel það ekki, heldur veit að svo verður ekki. Verslun Macland var upprunalega á Klapparstíg 30 (Sirkushúsið) þegar „Sumargötur“ voru prófaðar fyrst. Ég viðurkenni vissulega að ég hafði áhyggjur af því að loka fyrir bílaumferð fyrst, en bara um leið og gatan lokaði fyrir bílaumferð þá kom fólk í staðinn. Ég vil fá fólk í mína verslun, ekki bíla. 

Nú hefur kauphegðun breyst mikið á síðustu árum. Hefur þú gert ráðstafanir í markaðssetningu og uppsetningu verslunarinnar til að koma til móts við breytta  viðskiptahætti? Ertu t.d. með netverslun?

Já það hefur ekki farið fram hjá mér að netverslun hefur aukist. Við erum samt með frekar þjónustumiðaða vöru og reksturinn okkar tekur mið af því. Þó ég geri mér fyllilega grein fyrir því að stækkandi hluti viðskiptavina kýs að nota netið til að kaupa sér tæknivörur þá tel ég að þjónustufyrirtæki í þessum bransa séu ekki dauð. Kjarni Macland er þjónusta og út frá þeim kjarna kemur salan. Internetið mun aldrei koma algjörlega í staðinn fyrir frábæra þjónustu, framúrskarandi starfsfólk og vel staðsett þjónustuútibú ef ég á að vera alveg hreinskilinn. (Nú tekur einhver screenshot til að sýna mér eftir 20 ár, haha)

Netverslun hefur aukist hjá okkur eins og hjá öllum, en fólk treystir okkur til að ráðleggja sér og eins og staðan er í dag er það best gert í persónu, í verslun. Við fylgjumst vel með þróun í alls kyns hugbúnaði sem talið er að á næstu árum muni geta komið þekkingu starfsmanna meðal annars inn í samtalsróbóta á heimasíðu. En það er enn töluvert í land þar.

Stærsti verslunardagur ársins á Íslandi  er óneitanlega á Þorláksmessu en þá hefur Laugavegi einnig verið lokað fyrir bílaumferð. Hefur það haft áhrif á verslun á þeim degi?

Nei, þvert á móti. Hluti af því að fara í bæinn með fjölskyldu eða vinum er ekki að sækjast eftir þeim 15-20 bílastæðum sem eru á kaflanum Vatnsstígur – Bankastræti, a.m.k. á ég mjög bágt með að trúa því. Það eru 7 bílastæðahús í göngufæri frá Macland og það er meira að sækja hægt að fara á http://www.bilastaedasjodur.is/#bilahusin og sjá hvort það sé laust stæði og þá hversu mörg áður en þú velur þér stað til að leggja. 

Retro Stefson við Macland á Þorláksmessu 2012

Nú hefur Laugavegur og neðsti hluti Skólavörðustígs verið göngugata á sumrin. Hefur þú fundið fyrir breytingu í verslun á sumrin sem þú tengir beint við opnun sumargatna?

Við sjáum bara breytingu til batnaðar. En við nýtum okkur auðvitað tækifærið að það sé opið fyrir gangandi vegfarendur, spilum tónlist úti, erum með uppákomur t.d. tónleika og svo frv. Það er alltaf hægt að sjá tækifæri á sama tíma og ógn. Við kusum á sínum tíma að sjá tækifæri og það hefur ekkert breyst. Við erum ekki að reka verslun með bílalúgu og viljum því fá fólk sem hefur ákveðið að fara í bæinn að versla og/eða sækja sér þjónustu. Besta leiðin fyrir okkur til að fá fólk inn í verslunina er að það sé fótgangandi traffík allan daginn.

Ég á mjög erfitt með að skilja rekstraraðila sem níða skóinn af miðbænum og sínum eigin rekstri og eru svo hissa þegar fólk hættir að mæta til þeirra. Það sem gerir mig reiðan í því samhengi er að sú orðræða og það stríð sem þessir aðilar hafa háð gegn göngugötum og breytingum almennt hefur skaðað ímynd miðbæjarins, meira en fólk gerir sér grein fyrir. Ef þú talar eitthvað niður, þá fer það niður. Það þarf enga eðlisfræðigráðu til að skilja það. 

Frá tónleikum 101 Boys við Macland 2017

Hvernig myndir þú vilja sjá þróunina í miðborginni? Hver er þín framtíðarsýn?

Úff, þetta er stór spurning. Mér finnst uppbyggingin síðustu árin hafa marga plúsa, en einnig nokkra mínusa. Mínusarnir eru þó þannig að tíminn mun laga þá. Tímabundið mun verða „of mikið“ framboð af verslunar- og þjónustuhúsnæði. Skortur á slíku húsnæði er búið að vera risa vandamál í 101 Reykjavík. Ef miðborgin á að fá að vaxa og dafna þá þurfum við að byggja upp í loftið, setja þjónustu- og verslunarrými á jarðhæðir og þá kemur mannlífið. Þetta er eitthvað sem ég er mjög ánægður með og götur á borð við Barónsstíg, Smiðjustíg, Klapparstíg hafa gengið í endurnýjun lífdaga með tilkomu hárra bygginga með íbúðum á efri hæðum og mannlífi á 1.hæð.

En í stuttu máli þá væri mín framtíðarsýn að einn daginn geti ég gengið um Reykjavík og hugsað : „Veistu þetta er bara eins og í útlöndum“. Sú tilfinning er byrjuð að gera vart við sig hjá mér, sérstaklega þegar Hafnartorgið fór að taka á sig mynd. Það virðist vera ofboðslega vel heppnað og hlakka ég mikið til að sjá það svæði lifna við. 

Sumargötur 2018

Annað sem þú vilt koma til skila?

Sumargötur fóru af stað sem skemmtileg tilraun en í dag stend ég fyllilega á bakvið þá skoðun mína að gangandi vegfarendur á verslunargötum eru forsenda þess að viðskipti, þjónusta og mannlíf fái þar að dafna.

Ég bíð spenntur eftir 1.maí í ár og kvíði þess ekki að benda fólki á öll þau bílastæði sem eru í kringum þessar götur þar sem bílaumferð verður afþökkuð, vonandi til frambúðar. Breytingin á andrúmsloftinu, bæði bókstaflega og andlega, er mjög mikil. Það verður mikið léttara yfir öllum þegar börn mega hlaupa um götuna án þess að eiga á hættu að verða fyrir bíl og þó það rigni á okkur í sumar þá hvet ég Íslendinga til að kynna sér starfsemi allra þeirra fyrirtækja sem selja okkar dýrmætu ferðamönnum allan útivistarfatnaðinn sem þau kaupa. 

Ég biðla þó til borgarinnar að skoða sérstaklega vel hlut þeirra sem eiga erfitt með gang og þurfa að komast eins nálægt verslunargötunni og hægt er. Fjölga á „bláum“ bílastæðum að mínu mati alveg við Laugaveg og Skólavörðustíg til að koma til móts við þann hóp, engin spurning. Svo þarf borgin að virkilega skoða hvernig aðgengismál eru í miðborginni, en það getur verið mjög erfitt, dýrt og stundum jafnvel ómögulegt að koma upp aðgengi inn í verslanir í elstu húsunum. Við gerum okkar besta í þessum málum, en það dugar því miður ekki til. Borgin ætti að gefa þessu gaum, og þá sérstaklega núna þegar verið er að loka fyrir bílaumferð á þessum götum. 

Að lokum þá langar mig að hvetja Reykvíkinga og nærsveitunga til að koma í miðbæinn í sumar, finna sér bílastæði eða taka strætó og njóta þess að ganga um og skoða þær fallegu breytingar sem miðborgin hefur gengið í gegnum á síðustu árum.


Samtök um bíllausan lífsstíl þakka Herði Ágústssyni innilega fyrir gott spjall og við hvetjum fólk eindregið til að líta við hjá honum á leið sinni um Laugaveginn.