Ályktun Samtaka um bíllausan lífsstíl um Sumargötur

Það er ljóst að vélknúin ökutæki skipa ekki stóran sess þegar kemur að umferð um Laugaveginn. Samt taka þau mikilvægt pláss frá gangandi og hjólandi. Aðrar götur í kring eins og Sæbraut eru betri fyrir bíla og Hverfisgatan hentar ágætlega fyrir þau sem vilja komast akandi í verslanir á götunni. Nóg er um bílastæði allt í kring og leggja má í bílastæðahúsum með góðum aðgangi að Laugavegi. Stæði á Laugavegi eru hvort eð er fá, þau eru umsetin og mörg í notkun yfir allan daginn.

Sumargöturnar voru ágætis byrjun en Samtök um bíllausan lífsstíl telja ljóst að það sé kominn tími til að stíga skrefinu lengra og banna akandi umferð á stórum hluta Laugavegs og Skólavörðustígs frá Bergastaðastræti með öllu, allan sólarhringinn, árið um kring. Umferð vélknúinna ökutækja á Laugavegi, a.m.k. frá Frakkastíg og niður að Lækjargötu ætti þannig að takmarkast við þjónustubifreiðar um dagpart. Þó þyrfti að huga sérstaklega að þörfum hreyfihamlaðs fólks og þeirra sem eiga erfitt með gang.

Sambærilegar götur í norðlægum borgum eru ekki opnar fyrir bílaumferð, hvorki á sumrin né á öðrum árstímum, og nú þegar það stendur til að gera Laugaveginn upp er mikilvægt að sníða götuna að þörfum þeirra sem nota hana mest.

Ályktunin var unnin upp úr innleggjum á Facebook-hóp samtakanna.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *