Spurning um tíma.

Matarboð hjá ömmu í Mosó á miðvikudegi. Hjörðin þreytt og pirruð eftir langan vinnu/leikskóladag í Vesturbænum. Hvers vegna að þvælast í 37 mínútur með strætó þegar maður er ekki nema 25 mínútur á leiðarenda með einkabíl? Skoðum dæmið aðeins nánar.

Fimmtánin gengur á korters fresti svo þegar börnin eru komin í útifötin er eingöngu spurning um hve margar sveiflur nást í rólunni áður en rölt er 200 metra að næstu stoppustöð. Í vagninum rifjar yngri daman upp hvað allir sniðugu staðirnir á andlitinu hans pabba heita á meðan allur líkami eldri dömunnar dugir tæpast til að lýsa mikilfenglegu risaeðlumatarboði vinkvennana á deildinni fyrir mömmu.

Ekkert -„æ, já elskan, mamma getur ekki séð núna“ og allir hálsliðir á sínum stað.

Um leið og einhverjum er heitt er lítið mál að stinga úlpunni undir barnavagninn og hver veit nema þar leynist nokkrar rúsínur ef einhver er svangur.

Í Mosfellsbænum þiggur móðirinn annan kaffibolla með þökkum, því litla skottan mun ekki rumska þegar barnavagninn fer upp í þann stóra gula. Stóra stelpan sofnar í fanginu hans pabba á leiðinni heim, sem fer létt með að bera hana inn í rúm, því þessi fjölskylda er svo heppin að strætó stoppar á næsta horni.

Án þess að hika velur fjölskyldan Strætó, því þegar allt kemur til alls er þetta bara spurning um tíma. Hvernig við kjósum að verja þeim mínútum sem okkur eru gefnar.