Snjómokstri hætt á fimmtudögum

Hvers vegna lesum við ekki fréttir af því að menn hugleiði að skera niður snjómokstur á fimmtudögum vegna aukins bensínkostnaðar? Eða að Reykjanesbrautin opni seinna um  helgar vegna langvarandi halla á rekstri hennar?

Menn gera ekki sérstakar kröfur á að vegakerfið skili hagnaði eða standi undir sér. Viðbrögð við auknum kostnaði vegna snjómoksturs, vegaframkvæmda eða uppsetningu umferðarmerkja eru oftast þau að bíta á jaxlinn og láta sig hafa það, það dettur engum í hug að fækka vegum, skera niður þjónustu á þeim, fækka umferðarljósum eða loka vegunum á ákveðnum tímum sólarhringsins.

Það þykir hins vegar alveg sjálfsagt að fækka ferðum, byrja aka síðar um helgar eða leggja niður leiðir þegar almenningssamgöngur enda röngum megin við núllið. Og auðvitað er gott að mönnum sé umhugað um almannafé. Hins vegar er spurning hvort ekki sé réttara að líta hækkun á olíu sem sóknarfæri fyrir almenningssamgöngur fremur en enn eina ástæðuna til að skera þær niður.

– Pawel Bartoszek.